Ferill 191. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 191 . mál.


Ed.

216. Frumvarp til laga



um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 8/1986.

Flm.: Salome Þorkelsdóttir.



1. gr.

    Við 1. tölul. 6. mgr. 6. gr. laganna (verkefni sveitarfélaga) bætist nýr liður svohljóðandi:
    varnir gegn slysum.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júní 1990.

Greinargerð.


    Slys og afleiðingar þeirra eru orðin eitt stærsta heilbrigðisvandamál Íslendinga. Árlega verður fjöldi fólks fyrir miklum andlegum og líkamlegum þjáningum af völdum slysa; auk þess er kostnaður þjóðfélagsins mikill vegna þeirra. Með markvissu forvarnastarfi er unnt að koma í veg fyrir slys og þar með fækka þeim.
    Flutningsmaður þessa frumvarps telur að til þess að ná árangri sé nauðsynlegt að höfða til hvers einstaklings í því umhverfi sem hann lifir og hrærist í.
    Sveitarfélögin eru þær stjórnsýslueiningar sem best þekkja þarfir þegnanna á hverjum stað. Því er lagt til með þessu frumvarpi að lögfesta það sem eitt af verkefnum sveitarfélaganna, sbr. 6. gr. sveitarstjórnarlaga, að vinna að slysavörnum.
    Að sjálfsögðu er það á valdi hverrar sveitarstjórnar hvort og hvernig unnið verður að slysavörnum, enda aðstæður mismunandi, t.d. í þéttbýli og dreifbýli, svo að dæmi séu tekin. En telja verður meiri líkur á skipulegu forvarnastarfi ef sveitarstjórn hefur yfirstjórn á slíkum málum heima í héraði t.d. með því að sameina krafta þeirra sem að þessum málum vinna beint eða óbeint. Má í því sambandi nefna fulltrúa heilsugæslustöðva, lögreglu (umferðarslys), skipulagsyfirvalda, skóla, foreldra, íþróttasamtaka, félagasamtaka og klúbba sem hafa slysavarnir á stefnuskrá sinni.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    6. gr. laganna fjallar um sameiginleg velferðarmál íbúanna sem þau skulu vinna að eftir því sem fært þykir á hverjum tíma. Í upptalningu meðal verkefna sveitarfélaga, 1. lið, er bætt varnir gegn slysum.